Lög nr. 1 10. janúar 1997 (áður nr. 29/1963, endurútgefin samkvæmt lögum nr. 141/1996, 34. gr.)

Lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
     Sjóðurinn heitir Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík. Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum þessara laga.
     Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins starfar í tveimur fjárhagslega sjálfstæðum deildum, A-deild og B-deild, sem skipta með sér rekstrarkostnaði í hlutfalli við umfang hvorrar deildar í rekstri sjóðsins samkvæmt reglum er stjórn sjóðsins setur.

2. gr.
     Sjóðfélagar samkvæmt lögum þessum eru þeir einstaklingar sem greiða iðgjald til sjóðsins, þeir sem njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum og þeir einstaklingar sem með iðgjaldagreiðslum hafa áunnið sér rétt í sjóðnum en greiða ekki lengur iðgjald og hafa ekki hafið töku lífeyris úr sjóðnum.

3. gr.
     Sjóðfélagar í A-deild sjóðsins skulu vera allir þeir starfsmenn ríkisins sem náð hafa 16 ára aldri, eiga ekki aðild að B-deild sjóðsins skv. 4. eða 5. gr. og fá greidd laun á grundvelli kjarasamninga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, eða á grundvelli launaákvarðana samkvæmt lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd. Heimilt er þó að semja svo um í kjarasamningi að tilteknir hópar starfsmanna ríkisins, sem uppfylla þessi skilyrði, greiði í aðra lífeyrissjóði.
     Starfsmenn annarra launagreiðenda en ríkissjóðs, sem rétt eiga á aðild að B-deild sjóðsins skv. 2. og 3. mgr. 4. gr. þessara laga, skulu eiga rétt til aðildar að A-deild hans, kjósi þeir að nýta sér heimild 4. mgr. 4. gr., og skulu launagreiðendur þeirra þá greiða iðjald þeirra vegna til sjóðsins skv. 13. gr. Sama gildir um þá hjúkrunarfræðinga sem hefur verið skylt að greiða iðgjald til Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna en kjósa fremur aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, og hvílir þá sama skylda á launagreiðendum þeirra um iðgjaldagreiðslur til sjóðsins.
     Félagsmönnum aðildarfélaga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, aðildarfélaga Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands, sem ekki eiga aðild að sjóðnum skv. 1. og 2. mgr., er jafnframt heimilt að greiða iðgjald til A-deildar sjóðsins, enda hafi viðkomandi launagreiðandi samþykkt aðildina og þær skuldbindingar sem henni fylgja. Nánar skal kveðið á um aðild þessa í samþykktum sjóðsins.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita öðrum en þeim er að framan greinir aðild að A-deild sjóðsins, enda beri þeim ekki að greiða í annan lífeyrissjóð og fyrir liggi samþykki viðkomandi launagreiðenda fyrir aðildinni og þeim skuldbindingum sem henni fylgja. Nánari ákvæði um aðild að A-deild sjóðsins skulu vera í samþykktum hans.
     Þeir launagreiðendur, sem greiddu iðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á árinu 1996 fyrir starfsmenn sína, hafa heimild til að tryggja þá starfsmenn hjá A-deild sjóðsins sem ekki eiga aðild að B-deild hans skv. 4. gr. Sama gildir um þá starfsmenn þessara launagreiðenda sem áunnu sér réttindi án iðgjaldagreiðslu á árinu 1996.

4. gr.
     Iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga og réttindaávinnsla til ársloka 1996 skulu varðveitt í B-deild sjóðsins.
     Sjóðfélagar, sem greiddu iðgjald til sjóðsins eða áunnu sér réttindi án iðgjaldagreiðslu við árslok 1996, skulu eiga rétt til aðildar að B-deild lífeyrissjóðsins á meðan þeir gegna störfum hjá ríkinu, enda séu þeir skipaðir, settir eða ráðnir til a.m.k. eins árs eða ráðnir með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti og starf þeirra sé eigi minna en hálft starf. Sama á við um þá kennara og skólastjórnendur við grunnskóla sem voru í starfi við árslok 1996 á meðan þeir starfa við grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum, enda uppfylli ráðning þeirra sömu skilyrði um ráðningartíma og starfshlutfall.
     Þeir sem starfa hjá grunnskólum við annað en kennslu eða skólastjórnun, þeir sem starfa hjá skólaskrifstofum og hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur og aðild áttu að sjóðnum við árslok 1996 skulu eiga sama rétt til aðildar að B-deild sjóðsins meðan þeir gegna þessum störfum.
     Kjósi sjóðfélagi, sem 2. eða 3. mgr. tekur til, að greiða fremur iðgjald til A-deildar sjóðsins er honum það þó heimilt, enda hafi hann tilkynnt sjóðnum um þá ákvörðun sína fyrir 1. desember 1997. Fellur þá niður réttur hans til að greiða iðgjald til B-deildarinnar. Sjóðfélagi, sem þessi málsgrein eða 5. mgr. taka til og greiðir iðgjald til B-deildar sjóðsins eftir 1. desember 1997, getur einungis hafið greiðslu til A-deildar hans ef hann skiptir um starf, enda uppfylli hið nýja starf hans aðildarskilyrði að sjóðnum, eða ef iðgjaldagreiðslur hans hafa fallið niður af öðrum ástæðum í tólf mánuði eða lengur.
     Launagreiðendur, sem fengið höfðu heimild fyrir árslok 1996 til að greiða iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína, hafa áfram sömu heimild til að greiða iðgjald til B-deildar sjóðsins fyrir þá starfsmenn sína og aðra sjóðfélaga sem greiddu iðgjald til sjóðsins við árslok 1996. Hafi sjóðfélagi lokið iðgjaldagreiðslu fyrir árslok 1996 en áfram áunnið sér réttindi án iðgjaldagreiðslu vegna starfa hjá launagreiðanda sem um ræðir í þessari málsgrein skal hann halda sama rétti til réttindaávinnslu hjá B-deild sjóðsins. Kjósi sjóðfélagi, sem þessi málsgrein tekur til, að greiða fremur iðgjald til A-deildar sjóðsins er honum það þó heimilt að tilskildu samþykki launagreiðanda hans. Sjóðfélaginn þarf að hafa tilkynnt sjóðnum um þessa ákvörðun sína fyrir 1. desember 1997. Fellur þá niður heimild hans til að greiða iðgjald til B-deildarinnar.
     Einstaklingur, sem fengið hefur heimild til áframhaldandi aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fyrir árslok 1996 vegna niðurlagningar á stöðu eða starfi, hefur sömu heimild til að greiða iðgjald til B-deildar sjóðsins.

5. gr.
     Sjóðfélagi, sem ekki greiddi iðgjald til lífeyrissjóðsins við árslok 1996, án þess þó að formlegu ráðningarsambandi hans og launagreiðanda sem tryggir starfsmenn sína hjá sjóðnum hafi verið slitið, hefur sama rétt til aðildar að B-deild sjóðsins og þeir einstaklingar sem falla undir 2., 3. og 5. mgr. 4. gr.
     Falli iðgjaldagreiðslur til B-deildar sjóðsins niður af öðrum ástæðum en segir í 1. mgr., t.d. vegna þess að viðkomandi sjóðfélagi hættir í starfi eða skiptir um starf, hefur sjóðfélagi áfram rétt til aðildar að B-deildinni, svo fremi hann hefji aftur starf sem veitir honum rétt til aðildar að deildinni innan tólf mánaða frá því að iðgjaldagreiðslur féllu niður. Ef iðgjaldagreiðslur til sjóðsins falla hins vegar niður í tólf mánuði eða lengur, eða réttindaávinnsla án iðgjaldagreiðslu fellur niður í jafnlangan tíma, á viðkomandi einstaklingur ekki framar rétt á aðild að B-deild sjóðsins.
     Sjóðfélagar, sem greiddu iðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða áunnu sér réttindi hjá sjóðnum án iðgjaldagreiðslu á árinu 1996, þó svo að þeir hafi ekki verið í starfi sem veitti þeim rétt til aðildar að lífeyrissjóðnum í lok þess árs, eiga rétt til aðildar að B-deild sjóðsins hefji þeir störf sem um ræðir í 2. og 3. mgr. 4. gr. á árinu 1997, enda uppfylli ráðning þeirra skilyrði 2. mgr. 4. gr. um ráðningartíma og starfshlutfall. Sömu heimild til iðgjaldagreiðslu fyrir starfsmenn sína hafa þeir launagreiðendur sem falla undir 5. mgr. 4. gr.

6. gr.
     Stjórn sjóðsins skal skipuð átta mönnum. Fjármálaráðherra skipar fjóra stjórnarmenn, stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja skipar tvo stjórnarmenn, stjórn Bandalags háskólamanna skipar einn stjórnarmann og stjórn Kennarasambands Íslands skipar einn stjórnarmann. Jafnframt skulu sömu aðilar skipa jafnmarga menn til vara. Skipunartími stjórnarmanna er þrjú ár. Stjórnin kýs formann úr sínum hópi til eins árs í senn.

7. gr.
     Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiri háttar ákvarðanir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi. Hún skal sjá um að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórnin skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Stjórn sjóðsins setur honum samþykktir í samræmi við ákvæði þessara laga og ákvæði annarra laga um lífeyrissjóði eftir því sem við á. Í samþykktum sjóðsins skal m.a. kveðið á um hvernig ávaxta skuli fé hans.
     Fjármálaráðherra staðfestir hvort samþykktir sjóðsins og breytingar á þeim séu í samræmi við þessi lög og önnur lög um lífeyrissjóði að fenginni umsögn bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.

8. gr.
     Fyrir lok júní ár hvert skal stjórn lífeyrissjóðsins boða til ársfundar sjóðsins. Allir sjóðfélagar eiga rétt til fundarsetu á ársfundinum.
     Á ársfundi verði eftir því sem við á gerð grein fyrir skýrslu stjórnar, ársreikningum, tryggingafræðilegum úttektum, fjárfestingarstefnu og breytingum á samþykktum sjóðsins.

9. gr.
     Stjórn lífeyrissjóðsins ákveður hvernig haga skuli afgreiðslu sjóðsins.
     Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðuninni án sérstakrar þóknunar.

10. gr.
     Stjórn lífeyrissjóðsins skal árlega láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins. Nánari reglur um framkvæmd athugunarinnar skal setja í samþykktir sjóðsins.

11. gr.
     Óheimilt er að framselja eða veðsetja lífeyriskröfur samkvæmt lögum þessum, og ekki má leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám eða lögtak. Enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða kröfurnar á nokkurn hátt, og eigi má halda lífeyrisfé eftir til greiðslu opinberra gjalda.

II. KAFLI
A-deild lífeyrissjóðsins.
12. gr.
     A-deild lífeyrissjóðsins greiðir sjóðfélögum ellilífeyri og örorkulífeyri og eftirlifandi maka þeirra og börnum, og eftir atvikum sambúðaraðila, lífeyri samkvæmt ákvæðum þeim sem hér fara á eftir. Auk ákvæða þessarar greinar gilda ákvæði 13.–21. gr. sérstaklega um deildina.

13. gr.
     Iðgjald til A-deildar sjóðsins skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu og skal iðgjaldastofninn vera hinn sami og gjaldstofn tryggingagjalds, sbr. III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Ökutækjastyrkur, dagpeningar, fæðispeningar og þess háttar greiðslur, sem eru endurgreiðsla á útlögðum kostnaði, teljast þó ekki til iðgjaldastofns. Iðgjald launagreiðenda til deildarinnar skv. 4. mgr. telst sömuleiðis aldrei til iðgjaldastofnsins.
     Sjóðfélagar greiða 4% af launum skv. 1. mgr. í iðgjald til A-deildar sjóðsins. Launagreiðanda ber að halda iðgjöldum eftir af launum sjóðfélaga og greiða þau sjóðnum innan tveggja vikna frá útborgun þeirra.
     Sjóðfélagar og launagreiðendur þeirra bera eigi ábyrgð á skuldbindingum deildarinnar nema með iðgjöldum sínum.
     Launagreiðendur greiða að lágmarki 6% af launum þeim er sjóðfélagar taka hjá þeim, sbr. 1. mgr. þessarar greinar, í iðgjald til A-deildar sjóðsins og skal greiða þau sjóðnum samtímis iðgjöldum sjóðfélaga. Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að iðgjald sjóðfélaga til sjóðsins ásamt mótframlagi atvinnurekenda dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum sjóðsins skal stjórn sjóðsins hækka framlag launagreiðenda í samræmi við niðurstöðu athugunarinnar. Við ákvörðun á greiðslum launagreiðenda umfram 6% af launum sjóðfélaga ráði það sjónarmið að hrein eign A-deildar lífeyrissjóðsins til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda til A-deildarinnar séu á hverjum tíma jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miða við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur til.
     Iðgjald launagreiðenda skv. 4. mgr. skal endurskoða árlega og skal ákvörðun um hækkun þess eða lækkun liggja fyrir eigi síðar en 1. október fyrir komandi almanaksár.
     Heimilt er að setja ákvæði í samþykktir sjóðsins um að lífeyrissjóðurinn megi taka við viðbótariðgjaldi sem greitt verði umfram iðgjald skv. 2. og 4., sbr. 5. mgr., og að viðbótariðgjaldi þessu verði varið til ávinnslu réttinda hjá lífeyrissjóðnum eftir nánari reglum í samþykktum sjóðsins og í samræmi við tillögur tryggingafræðinga.

14. gr.
     Samanlögð iðgjöld sjóðfélaga A-deildar hvert almanaksár skulu umreiknuð í stig sem mynda grundvöll lífeyrisréttinda hans.
     Til grundvallar stigaútreikningi skal leggja samanlögð grundvallarlaun almanaksársins. Grundvallarlaun miðað við janúar 1996 skulu vera 49.084 kr., og skulu þau taka sömu hlutfallsbreytingum og vísitala neysluverðs frá 174,2 stigum.
     Stig hvers árs reiknast þannig að í árslaun sjóðfélaga sem iðgjald er greitt af (þ.e. 4% iðgjald skv. 1. og 2. mgr. 13. gr. margfaldað með 25) er deilt með grundvallarlaunum ársins skv. 2. mgr.
     Stig ársins skal reikna með þremur aukastöfum.
     Stig verði ekki reiknuð eftir lok þess mánaðar sem sjóðfélagi nær 70 ára aldri, enda greiði sjóðfélagar ekki iðgjald til sjóðsins eftir að þeim aldri er náð.

15. gr.
     Hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjald til A-deildar sjóðsins, á rétt á lífeyri frá næstu mánaðamótum eftir að hann verður 65 ára.
     Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af grundvallarlaunum eins og þau eru á hverjum tíma og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sjóðfélaga skv. 14. gr., margfölduðum með 1,90.
     Sjóðfélaga A-deildar er heimilt að hefja töku ellilífeyris áður en hann nær 65 ára aldri, en þó ekki fyrr en næstu mánaðamót eftir að hann verður 60 ára. Upphæð ellilífeyris skal þá lækka frá því sem segir í 2. mgr. um 0,5% af óskertum áunnum lífeyrisrétti fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem vantar á 65 ára aldur er taka lífeyris hefst.
     Sjóðfélaga A-deildar er heimilt að fresta töku lífeyris eftir að hann nær 65 ára aldri. Upphæð ellilífeyris vegna réttinda sem hann ávann sér fram til 65 ára aldurs skal þá hækka frá því sem segir í 2. mgr. um 0,5% fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem töku lífeyris er frestað fram yfir 65 ára aldurinn, en þó ekki lengur en til 70 ára aldurs.
     Haldi sjóðfélagi í A-deild sjóðsins áfram að ávinna sér réttindi eftir að hann hefur hafið töku ellilífeyris skulu viðbótarstig hans reiknuð á ný þegar hann hefur náð 70 ára aldri. Réttindi, sem sjóðfélagi ávinnur sér eftir að taka lífeyris hefst, reiknast án hækkunar skv. 4. mgr. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skulu stig samkvæmt þessari málsgrein margfölduð með 0,95 við útreikning ellilífeyris.

16. gr.
     Sjóðfélagi, sem verður fyrir orkutapi sem telja verður að nemi 40% eða meira og hefur áunnið sér alls a.m.k. 2 stig, á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin stig fram að orkutapi.
     Réttur til örorkulífeyris stofnast aðeins ef sjóðfélagi hefur orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. 18. gr. vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.
     Hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skal ákvarða að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku umsækjanda aftur í tímann. Tryggingayfirlæknir skal meta hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess. Fyrstu fimm árin eftir orkutapið skal mat þess aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu skal hundraðshluti orkutaps ákvarðaður að nýju með tilliti til vanhæfni sjóðfélagans til að gegna almennum störfum.
     Heimilt er, að fengnu áliti tryggingayfirlæknis, að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt gæti heilsufar hans.
     Þegar skilyrði 1. mgr. og þessarar málsgreinar eru uppfyllt miðast hámark örorkulífeyris við áunninn lífeyrisrétt skv. 15. gr. að viðbættum lífeyri er svarar til þess stigafjölda sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 65 ára aldurs, reiknuðum samkvæmt ákvæðum 9. mgr., margfölduðum með 1,90, enda hafi sjóðfélagi:
a.
greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og áunnið sér eigi minna en 0,5 stig hvert þessara þriggja ára,
b.
greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum,
c.
ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja megi til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

     Eigi sjóðfélaginn jafnframt rétt á örorkulífeyri úr öðrum sjóði skal hann því aðeins njóta framreikningsréttinda úr þessum sjóði að hann hafi síðast greitt iðgjöld til hans.
     Þó svo að lífeyrissjóðurinn hafi gert samning við aðra lífeyrissjóði um réttindaflutninga samkvæmt heimild í 20. gr. stofnast ekki réttur til framreiknings í þessum sjóði ef sjóðfélagi hefur skipt um starf og af þeim sökum hafið iðgjaldagreiðslur til þessa sjóðs á síðustu 24 mánuðum fyrir orkutap og rekja má starfsskiptin til versnandi heilsufars sem leitt hefur til orkutapsins. Eigi sjóðfélagi, sem þessi málsgrein tekur til, ekki rétt á framreiknuðum örorkulífeyri úr öðrum lífeyrissjóði skal þó framreikna réttindi hjá þessum sjóði, enda hafi örorka sjóðfélaga skv. 1. mgr. komið til að mati tryggingayfirlæknis eftir að sjóðfélagi hóf iðgjaldagreiðslur til þessa sjóðs.
     Hafi sérstakar ástæður, svo sem aldur sjóðfélaga, búseta hans erlendis eða nám, orðið þess valdandi að hann hefur ekki getað uppfyllt tímaskilyrði þau sem nefnd eru í a-lið 5. mgr. er sjóðstjórn heimilt að stytta þann tíma sem þar er krafist í tvö undanfarandi almanaksár, enda verði talið fullvíst að orsök örorku verði ekki rakin til tíma fyrir orkutap.
     Eigi sjóðfélagi, sem ekki hefur náð 65 ára aldri er hann verður fyrir orkutapi, rétt skv. 5. mgr. á framreikningi stiga skal sá framreikningur vera reiknaður út frá meðaltali stiga sjóðfélaga næstu þrjú almanaksárin fyrir orkutapið. Telji sjóðstjórnin þetta þriggja ára meðaltal vera sjóðfélaganum óhagstætt vegna sjúkdómsforfalla eða atvinnuleysis er henni heimilt að leggja til grundvallar meðaltal stiga fleiri ár aftur í tímann og sleppa úr meðaltalinu því almanaksári sem lakast er.
     Hafi sjóðfélagi haft skerta almenna starfsorku fyrir þann tíma er hann hóf iðgjaldagreiðslur til sjóðsins og meta má þá starfsorkuskerðingu 50% eða meira skal reikna meðaltal stiga hans öll þau almanaksár sem hann hefur greitt iðgjald til sjóðsins. Skal þá í slíkum tilvikum miða framreikning við þetta meðaltal.
     Nú hafa iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til lífeyrissjóða verið svo stopular að þær hafa fallið niður eða verið innan við 0,5 stig á ári fleiri en eitt almanaksár eftir lok þess árs er sjóðfélagi náði 25 ára aldri og sennilegt má telja að vanheilsa, áfengisneysla eða notkun lyfja og fíkniefna hafi átt þátt í stopulum greiðslum, og skal þá framreikningstími styttur í hlutfallinu milli fjölda almanaksára sem árleg stig hafa verið undir 0,5 og fjölda almanaksára frá 25 ára aldri fram til orkutaps. Sama gildir ef stopular iðgjaldagreiðslur stafa af undanskoti frá greiðsluskyldu til lífeyrissjóða.
     Nemi árlegt meðaltal sem miða skal framreikning við skv. 9. eða 10. mgr. meira en sex stigum skal reikna með meðaltalinu allt að tíu árum, en síðan til 65 ára aldurs, reiknað með sex stigum á ári að viðbættum helmingi þeirra stiga sem umfram eru.
     Ef rekja má sjúkdóma þá sem valda orkutapi sjóðfélaga svo langt aftur í tímann að nemi a.m.k. helmingi almanaksára frá lokum þess árs er sjóðfélagi náði 16 ára aldri til þess tíma er orkutap telst hafa orðið skulu framreiknuð stig aldrei reiknast fleiri en þau stig sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér í lífeyrissjóðum fram að orkutapi.
     Örorkulífeyrir er sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri og orkutapið er metið, sbr. þó 1. mgr.
     Örorkulífeyrir greiðist einungis ef orkutap og tekjumissir vegna orkutaps vara í þrjá mánuði eða lengri tíma.
     Skylt er sjóðfélaga, sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris, að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris.
     Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra sjóðfélaga sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn ef örorkan vex til muna frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn á þeim tíma er örorkan óx ekki verið í starfi er veitti honum lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóði.
     Örorkulífeyrir fellur niður við 65 ára aldur. Ellilífeyrir skal þá ákveðinn þannig að auk áunninna stiga skal reikna að þeim hluta, er hundraðshluti örorku segir til um, stig sem við úrskurð örorkulífeyris voru reiknuð sjóðfélaganum fram til 65 ára aldurs. Aldrei skal þó slík viðbót við áunnin stig vera meiri en svo að heildarstigafjöldi hvert almanaksár verði hærri en almennt tíðkast í starfsgrein hlutaðeigandi sjóðfélaga.

17. gr.
     Nú andast sjóðfélagi sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt hafði iðgjald til hans a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum og lætur eftir sig maka og á þá hinn eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum. Fullur makalífeyrir skal að lágmarki greiddur í 36 mánuði og 50% makalífeyrir í 24 mánuði til viðbótar.
     Láti sjóðfélagi eftir sig eitt barn eða fleiri innan 22 ára aldurs sem hann hefur átt með eftirlifandi maka sínum skal fullur makalífeyrir greiddur fram að 22 ára aldri yngsta barnsins, enda sé það á framfæri makans. Kjörbarn þeirra veitir sama rétt og börn samkvæmt þessari grein. Hafi ættleiðingin átt sér stað eftir 60 ára aldur sjóðfélagans, eftir að hann missti starfsorku sína eða innan árs áður en hann lést, skal stjórn sjóðsins þó úrskurða um hvort greiða skuli eftirlifandi maka lífeyri samkvæmt þessari grein.
     Sé maki a.m.k. 50% öryrki skal greiddur makalífeyrir meðan sú örorka varir, enda sé eftirlifandi maki yngri en 67 ára við fráfall sjóðfélagans.
     Jafnframt skal greiða makalífeyri ótímabundið til eftirlifandi maka sjóðfélaga sem fæddir eru fyrir 1. janúar 1945 með þeim takmörkunum sem hér segir: Makalífeyrir skv. 6. mgr. skal lækka um 2% fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1925, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1930, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1935 og 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1940.
     Nú lætur sjóðfélagi ekki eftir sig maka og er þá stjórn sjóðsins heimilt að greiða lífeyri skv. 1.–3. mgr. til aðila sem sannanlega hefur annast heimili hins látna um langt árabil fyrir andlát hans.
     Upphæð óskerts makalífeyris er hundraðshluti af grundvallarlaunum eins og þau eru á hverjum tíma og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem sjóðfélaganum er reiknaður, margfölduðum með 0,95. Þegar skilyrði 1. mgr. um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt skal auk áunninna stiga telja þau stig sem ætla má að sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 65 ára aldurs, reiknuð í samræmi við ákvæði 9. mgr. 16. gr. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris úr sjóðnum skal reikna stig frá þeim tíma er honum var veittur örorkulífeyrir og til þess tíma er makalífeyrir er veittur, allt að 65 ára aldri, í samræmi við ákvæði lokamálsgreinar 16. gr., en síðan til 65 ára aldurs í samræmi við stig þau sem lögð voru til grundvallar örorkulífeyri. Veiti dauðsfallið eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði skal hann því aðeins njóta framreikningsréttinda úr þessum sjóði að hinn látni hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs. Séu skilyrði 1. mgr. um iðgjaldagreiðslutíma ekki uppfyllt ákvarðast upphæð makalífeyris í samræmi við 2. mgr. 19. gr.
     Rétthafi samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist, sbr. lög nr. 87/1996, eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er hér átt við sambúð karls og konu sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. eitt ár. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar, en gengur aftur í gildi ef síðara hjónabandinu er slitið án réttar til lífeyris.

18. gr.
     Nú andast sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins eða notið úr honum örorkulífeyris í a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum, og eiga þá börn hans og kjörbörn sem hann lætur eftir sig og yngri eru en 22 ára rétt á lífeyri úr sjóðnum til 22 ára aldurs. Veiti fráfall sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.
     Fullur barnalífeyrir vegna fráfalls sjóðfélaga er 10.000 kr. með hverju barni fyrir hvern almanaksmánuð. Fjárhæð þessi breytist í hlutfalli við breytingu á grundvallarfjárhæð, sbr. 2. mgr. 14. gr. Fullur barnalífeyrir greiðist ef árleg stig, áætluð í samræmi við 6. mgr. 17. gr., eru a.m.k. eitt stig. Séu áætluð árleg stig færri lækkar barnalífeyrir frá sjóðnum hlutfallslega og fellur niður ef árlegur stigafjöldi er minni en 0,5.
     Sé sjóðfélaga, sem uppfyllir skilyrði a- og b-liðar 5. mgr. 16. gr., úrskurðaður örorkulífeyrir úr sjóðnum vegna 100% örorku öðlast börn hans, fædd fyrir orkutap eða á næstu tólf mánuðum þar á eftir, svo og kjörbörn sem ættleidd hafa verið fyrir orkutap, sama rétt og börn látins sjóðfélaga njóta skv. 2. mgr. með þeirri undantekningu að fjárhæð fulls barnalífeyris fyrir hvern almanaksmánuð er 7.500 kr. með hverju barni. Sé örorka skv. 16. gr. metin lægri en 100% skal barnalífeyrir sjóðsins vera hlutfallslega lægri. Barnalífeyrir, sem greiddur er vegna örorku sjóðfélaga, fellur ekki niður þó að sjóðfélaginn nái ellilífeyrisaldri.
     Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera mundu ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.
     Barnalífeyrir greiðist framfæranda barnsins til 18 ára aldurs þess, en eftir það til barnsins.

19. gr.
     Tímabil er iðgjaldagreiðslur hafa sannanlega fallið niður vegna veikinda eða atvinnuleysis reiknast ekki með þegar úrskurða skal hvort skilyrði um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt.
     Réttur til elli-, örorku- og makalífeyris fellur ekki niður þótt sjóðfélagi hætti iðgjaldagreiðslu. Rétturinn miðast þá einungis við áunnin geymd stig, sbr. þó 1. mgr.

20. gr.
     Í samþykktum sjóðsins er heimilt að hafa ákvæði um gerð samninga við aðra lífeyrissjóði um tilhögun réttindaflutninga.

21. gr.
     Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftir á, í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir þann mánuð þegar lífeyrisréttur myndaðist og í síðasta sinn fyrir þann mánuð þegar réttur til lífeyris fellur úr gildi. Sjóðfélagi, sem hefur töku lífeyris í beinu framhaldi af starfslokum og hefur fengið fyrir fram greidd laun, skal þó fá lífeyri greiddan fyrir fram.
     Nú nær lífeyrisgreiðsla ekki fjárhæð er svarar til a.m.k. eins stigs réttinda og fyrirsjáanlegt er að um sameiningu við önnur réttindi verður ekki að ræða, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að inna greiðsluna af hendi í einu lagi samkvæmt reglum í samræmi við tillögur tryggingafræðinga.

III. KAFLI
B-deild lífeyrissjóðsins.
22. gr.
     B-deild sjóðsins greiðir sjóðfélögum ellilífeyri og örorkulífeyri og eftirlifandi maka þeirra og börnum, og eftir atvikum sambúðaraðila, lífeyri samkvæmt ákvæðum þeim sem hér fara á eftir. Auk ákvæða þessarar greinar gilda ákvæði 23.–34. gr. sérstaklega um deildina.

23. gr.
     Sjóðfélagar greiða 4% af föstum launum sínum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót í iðgjald til sjóðsins. Launagreiðanda ber að halda iðgjöldum eftir af launum sjóðfélaga og greiða þau sjóðnum innan tveggja vikna frá útborgun launanna.
     Sjóðfélagar bera eigi ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins nema með iðgjöldum sínum.
     Launagreiðendur greiða 6% af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót, er sjóðfélagi tekur hjá þeim, í iðgjöld til sjóðsins og skal greiða þau sjóðnum samtímis iðgjöldum sjóðfélaga.
     Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í 32 ár falla iðgjaldagreiðslur hans niður. Þó er sjóðfélaga, er gegnt hefur um lengri eða skemmri tíma hlutastarfi, heimilt að greiða áfram iðgjald til sjóðsins af föstum launum sínum fyrir dagvinnu allt að því marki að jafngildi iðgjaldagreiðslu af launum fyrir fullt starf í 32 ár. Launagreiðanda skal þá skylt að greiða iðgjald að sínum hluta, sbr. 3. mgr. þessarar greinar. Eftir að iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga falla niður samkvæmt þessari málsgrein eða 4. mgr. 24. gr. greiðir launagreiðandi hans 10% af launum þeim sem tilgreind eru í 3. mgr. þessarar greinar í iðgjald til sjóðsins.
     Launþegi, sem yngri er en 16 ára, greiðir eigi iðgjöld til sjóðsins, enda öðlast hann eigi réttindi sjóðfélaga fyrr en hann hefur náð nefndum aldri.
     Taki sjóðfélagi ekki laun samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem iðgjöld eru greidd af, og skulu þau ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

24. gr.
     Hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins, á rétt á lífeyri frá næstu mánaðamótum eftir að hann verður 65 ára, enda hafi hann þá látið af þeim störfum sem veitt hafa honum aðild að sjóðnum.
     Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast. Hundraðshluti þessi fer eftir iðgjaldagreiðslutíma og starfshlutfalli sjóðfélagans og er 2% fyrir hvert ár í fullu starfi sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir, en hlutfallslega lægri fyrir minna starfshlutfall. Fyrir hvert fullt ársstarf eftir að iðgjaldagreiðslu lýkur og þar til sjóðfélaginn öðlast rétt til að láta af störfum og fá ellilífeyri bætist við 1% af föstum árslaunum fyrir fullt starf en 2% fyrir hvert fullt ársstarf eftir að iðgjaldagreiðslu er lokið og hann hefur öðlast rétt til að fá lífeyri.
     Eftir að taka lífeyris hefst skulu breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 2. mgr., og skal Hagstofa Íslands reikna þær mánaðarlega.
     Þegar sjóðfélagi hefur náð því að samanlagður lífaldur og iðgjaldagreiðslutími sé 95 ár, hann er orðinn 60 ára og lætur af störfum á hann rétt á lífeyri úr sjóðnum. Sjóðfélagi, sem notfærir sér þessa reglu, skal greiða iðgjald til sjóðsins þar til 95 ára markinu er náð. Lífeyrisréttur hans skal vera 2% fyrir hvert ár í fullu starfi sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir, en hlutfallslega lægri fyrir skemmra starfstímabil og minna starfshlutfall, en þó ekki meira en 64% að náðu 95 ára markinu. Iðgjaldagreiðsluskylda fellur niður þegar 95 ára markinu er náð. Sjóðfélagi, sem nær 95 ára markinu eftir að hann nær 64 ára aldri, getur ekki nýtt sér heimild samkvæmt þessari málsgrein.
     Lífeyrisréttur hjá þeim sem njóta útreiknings skv. 4. mgr. skal aukast um 2% fyrir hvert ár í fullu starfi frá því að iðgjaldagreiðsluskyldu lýkur og þar til taka lífeyris hefst, en um hlutfallslega lægri hundraðshluta fyrir skemmra starfstímabil og minna starfshlutfall.
     Hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins skal miða lífeyrinn við hæst launaða starfið, enda hafi hann gegnt því í að minnsta kosti tíu ár, ella skal miða það hærra launaða starf sem hann að viðbættum enn hærra launuðum störfum gegndi í að minnsta kosti tíu ár.
     Heimilt er stjórn sjóðsins að greiða ellilífeyrisþegum á aldrinum 65 til 67 ára uppbót á lífeyri allt að einstaklingslífeyri almannatrygginga. Það er skilyrði fyrir slíkri uppbót, að sjóðfélaginn sé ekki lengur fullfær um að gegna starfi sínu. Til sönnunar því ber viðkomandi að leggja fram umsögn yfirmanns síns um starfshæfnina og vottorð tryggingayfirlæknis um heilsufar.
     Sjóðfélagi, sem gegnir starfi sem uppfyllir aðildarskilyrði að sjóðnum skv. 4. gr., á ekki auk launa jafnframt rétt til lífeyris meðan hann gegnir því starfi. Sama á við um þá sem fá greidd óskert laun, sem starfinu fylgja, eftir að þeir láta af störfum.
     Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. laga nr. 46/1965, um eftirlaun alþingismanna, á alþingismaður ekki rétt til lífeyris meðan hann fær greitt þingfararkaup eða biðlaun.
     Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laga nr. 47/1965, um eftirlaun ráðherra, á ráðherra ekki rétt til lífeyris meðan hann fær greidd ráðherralaun eða biðlaun.

25. gr.
     Vaktavinnufólk, það er þeir sjóðfélagar sem hafa vinnutíma sem hreyfist með reglubundnum hætti, skal fá rétt til sérstaks viðbótarlífeyris (ellilífeyris, örorkulífeyris eða makalífeyris) úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, enda sé þeim skylt að greiða iðgjald af vaktaálagsgreiðslum til sjóðsins.
     Sama gildir um næturverði og það starfsfólk sem hefur vinnuskyldu eingöngu á nóttunni, það er á tímabilinu frá kl. 22.00–09.00, og skal þá álagsgreiðslan verða grundvöllur iðgjalda og lífeyrisréttinda.
     Sjóðfélagi greiði 4% af vaktaálaginu í iðgjöld og launagreiðandi 6%.
     Stjórn lífeyrissjóðsins ákveður á hverjum tíma hver skuli vera viðmiðunarmánaðarlaun þau sem lífeyririnn ákvarðast af og iðgjaldið er metið eftir.
     Breyti stjórn lífeyrissjóðsins viðmiðunarmánaðarlaununum skal hún jafnframt ákveða hvort og þá hvernig skuli umreikna áunninn lífeyrisrétt fyrri ára.
     Iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga af vaktaálagi skulu ár hvert metnar þannig til lífeyrisréttinda að reiknað sé hvað iðgjaldagreiðslur ársins samsvara margra mánaða iðgjaldagreiðslu af viðmiðunarlaunum.
     Fyrir jafngildi hverrar tólf mánaða iðgjaldagreiðslu ávinnst réttur til ellilífeyris og örorkulífeyris sem nemur 2% af viðmiðunarlaunum og réttur til makalífeyris sem nemur 1% af viðmiðunarlaunum.

26. gr.
     Hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins, á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi er tryggingayfirlæknir metur 10% eða meira. Örorkumat þetta skal aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna starfi því er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Þrátt fyrir örorku á enginn rétt á örorkulífeyri meðan hann heldur fullum föstum launum fyrir starf það er hann gegndi, eða fær jafnhá laun fyrir annað starf sem veitir lífeyrissjóðsréttindi, og aldrei skal örorkulífeyrir vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.
     Hámark örorkulífeyris miðast við áunninn lífeyrisrétt skv. 24. gr. Hafi sjóðfélaginn greitt iðgjöld til sjóðsins undanfarin þrjú almanaksár og a.m.k. í sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum miðast hámark örorkulífeyris þó við áunninn lífeyrisrétt skv. 24. gr., að viðbættum einstaklingslífeyri almannatrygginga. Ef rekja má aðalorsök örorkunnar til starfs í þágu stöðu þeirrar sem öryrkinn gegndi skal þó reikna áunninn lífeyrisrétt eins og sjóðfélaginn hefði gegnt stöðu sinni til 65 ára aldurs, og skulu áunnin lífeyrisréttindi þá reiknast af launum í því starfi sem sjóðfélaginn gegndi síðast eins og þau eru á hverjum tíma.
     Sé örorka sjóðfélagans á milli 10% og 50% er örorkulífeyrir hans sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri eins og örorkan er metin. Sé örorkan metin 50% til 75% er örorkulífeyririnn 50% af hámarkinu að viðbættum 2% af því fyrir hvert 1% sem örorkan er metin umfram 50%. Sé örorkan metin 75% eða meiri greiðist hámarksörorkulífeyrir að frádregnum örorkulífeyri almannatrygginga. Þegar öryrki, sem metinn er undir 75%, nær 65 ára aldri fær hann greiddan ellilífeyri samkvæmt ákvæðum 24. gr. Frá sama tíma fellur niður örorkulífeyrir hans. Þó skal hann halda til 67 ára aldurs þeim hluta hans sem miðaður er við lífeyri almannatrygginga.
     Skylt er öryrkja, sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur hans, að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til örorkulífeyris.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti.
     Sömuleiðis ber stjórn sjóðsins að hækka örorkulífeyrinn ef örorkan vex til muna og án sjálfskaparvíta frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi öryrkinn á þeim tíma, sem örorkan óx, ekki verið í þjónustu annarra en þeirra aðila sem tryggja starfsfólk sitt í sjóðnum.

27. gr.
     Nú andast sjóðfélagi og lætur hann eftir sig maka á lífi, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt til lífeyris úr sjóðnum.
     Upphæð makalífeyris er helmingur af áunnum ellilífeyrisrétti hins látna sjóðfélaga. Makalífeyrir hækkar síðan um 20% af launum þeim er hann miðast við ef hinn látni sjóðfélagi hefur verið í fullu starfi við starfslok, en hækkunin verður hlutfallslega lægri ef sjóðfélaginn hefur verið í lægra starfshlutfalli við starfslok. Viðbótarlífeyrir þessi greiðist þó einungis ef hinn látni sjóðfélagi hefur uppfyllt eitt af þremur eftirgreindum skilyrðum:
1.
Hann hafi verið í starfi er veitti honum aðild að sjóðnum við andlátið.
2.
Hann hafi hafið töku lífeyris fyrir andlátið og upphaf lífeyristöku hans hafi verið í beinu framhaldi af starfi sem veitti honum aðild að sjóðnum.
3.
Hann hafi greitt iðgjöld til sjóðsins sem nema iðgjaldagreiðslum af fullu starfi í 15 ár eða meira og ekki greitt iðgjald til annars sjóðs eftir að greiðslum til þessa sjóðs lauk.

     Nú hefur sjóðfélagi gengið í hjónaband eftir að hann var orðinn 60 ára, eða á þeim tíma er hann naut lífeyris úr sjóðnum eða hann var lagstur banaleguna, og úrskurðar þá stjórn sjóðsins hvort eftirlifandi maki hans skuli njóta lífeyris úr sjóðnum eða eigi.
     Réttur til lífeyris samkvæmt þessari grein fellur niður ef hinn eftirlifandi maki gengur í hjónaband að nýju, en kemur aftur í gildi sé hinu síðara hjónabandi slitið, enda veiti hið síðara hjónaband eigi rétt til lífeyris úr sjóðnum. Veiti síðara hjónabandið einnig rétt til lífeyris má eftirlifandi maki velja um hvort hann tekur lífeyrinn eftir fyrri eða síðari makann.
     Hafi hjúskap lokið vegna skilnaðar skal útreikningur makalífeyris miðast við þann tíma er hinn látni sjóðfélagi hafði átt aðild að sjóðnum þegar hjúskap var slitið. Viðbótarlífeyrir skv. 2. mgr. greiðist ekki í því tilviki.
     Þegar sjóðfélagi, sem verið hefur tvígiftur, deyr og lætur eftir sig maka og fyrrverandi maka á lífi skiptist makalífeyririnn á milli þeirra þannig að réttur fyrrverandi maka ákvarðast samkvæmt reglu 5. mgr. en réttur maka telst frá þeim degi er hinum fyrra hjúskap var slitið. Hliðstæð regla gildir séu rétthafar makalífeyris fleiri en tveir.
     Hafi sjóðfélagi verið utan hjónabands við andlátið, en einstæð móðir hans, ógift systir hans eða annar ógiftur aðili hefur sannanlega annast heimili hans um árabil fyrir andlát hans, þó eigi skemur en fimm ár, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að greiða hlutaðeigandi makalífeyri, svo sem um ekkju eða ekkil væri að ræða. Á sama hátt er sjóðstjórn heimilt að greiða sambúðarmanni og sambúðarkonu lífeyri ef sjóðfélagi lætur eftir sig barn innan 18 ára aldurs sem hann hefur átt með hinu eftirlifandi. Einnig er sjóðstjórn heimilt að greiða sambúðarkonu eða sambúðarmanni lífeyri í 24 mánuði þótt ekki sé fullnægt skilyrðum 1. málsl. um sambúðartíma, eða ef sambúðaraðili er 50% öryrki eða meira.

28. gr.
     Nú frestar sjóðfélagi að taka ellilífeyri og tekur jafnframt við öðru starfi hjá stofnun er veitir aðgang að sjóðnum, lægra launuðu en því er hann gegndi áður, og skal þá reikna lífeyri eftir því starfinu sem hærra var launað.
     Sama regla gildir þegar sjóðfélagi verður af heilsufarsástæðum að láta af stöðu sinni, en tekur við öðru léttara og lægra launuðu starfi er veitir aðgang að sjóðnum. Þegar svo stendur á sem í þessari málsgrein ræðir um er sjóðfélaga heimilt að kaupa sér réttindi í sjóðnum fyrir þann tíma sem úr hefur fallið. Stjórn sjóðsins getur krafist vottorðs tryggingayfirlæknis til sönnunar því að sjóðfélaginn verði að láta af stöðu sinni vegna heilsubrests.
     Þegar lífeyrisgreiðslur skulu miðast við hærra launað starf en lokastarf skv. 1. eða 2. mgr. eða skv. 6. mgr. 24. gr. skal við ákvörðun um lífeyri miða við meðalhækkanir á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu skv. 3. mgr. 24. gr. frá þeim tíma er starfsmaður lætur af sínu hærra launaða starfi og þar til taka lífeyris hefst.
     Hafi starfsmaður látið af hinu hærra launaða starfi fyrir árslok 1996 skal þó miða breytingar á lífeyri við breytingar á þeim launum er starfinu fylgdu fram til ársloka 1996. Eftir það skal farið eftir reglu 3. mgr.

29. gr.
     Börn eða kjörbörn, sem sjóðfélagi lætur eftir sig er hann andast, og yngri eru en 18 ára, skulu fá árlegan lífeyri úr sjóðnum þar til þau eru fullra 18 ára að aldri, enda hafi hinn látni séð um framfærslu þeirra að nokkru eða að öllu leyti. Sama gildir um börn eða kjörbörn er sá maður lætur eftir sig er naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum er hann andaðist.
     Ef barnið á foreldri eða kjörforeldri á lífi, er sér um framfærslu þess, er samanlagður lífeyrir þess frá almannatryggingum og úr þessum sjóði 50% hærri en barnalífeyrir almannatrygginga. Að öðrum kosti er lífeyririnn tvöfaldur barnalífeyrir almannatrygginga.
     Sama rétt öðlast börn og kjörbörn þeirra sjóðfélaga er njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum, þó svo að barnalífeyrir úr þessum sjóði til barna eða kjörbarna örorkulífeyrisþega skal vera jafnmargir hundraðshlutar af fullum barnalífeyri eins og örorkulífeyrir hans er margir hundraðshlutar af hámarksörorkulífeyri.
     Fósturbörn, er sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, njóta sama réttar og börnum og kjörbörnum er veittur hér að framan.

30. gr.
     Nú lætur sjóðfélagi af öðrum ástæðum en elli eða örorku af stöðu þeirri er veitti honum aðgang að sjóðnum og fellur þá niður réttur hans og skylda til að greiða framvegis iðgjöld til sjóðsins. Ellilífeyrir hans, örorkulífeyrir og lífeyrir eftirlátins maka miðast þá við starfstíma hans og laun þau er hann hafði er hann lét af stöðu þeirri er veitti aðgang að sjóðnum, en tekur sömu breytingum og lífeyrir annarra eftir að taka lífeyris hefst. Eigi sjóðfélagi réttindi hjá sjóðnum vegna þriggja ára eða lengri greiðslutíma reiknast lífeyrir þó samkvæmt reglum 3. og 4. mgr. 28. gr. Hafi hann gegnt stöðunni skemur en 32 ár skal lífeyrir barna hans ákveðinn þannig að full upphæð skv. 29. gr. skal margfölduð með hlutfallinu á milli þess ellilífeyris sem hann hefur öðlast rétt til og þess ellilífeyris sem hann hefði öðlast rétt til ef hann hefði gegnt starfinu í 32 ár.
     Sé staða eða starfi sjóðfélagans lagður niður á hann rétt á að vera áfram í sjóðnum og greiða iðgjöld sem miðuð séu við þau laun er hann hafði er staða hans var lögð niður og frá þeim tíma skulu iðgjaldagreiðslur síðan breytast til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 3. mgr. 24. gr.

31. gr.
     Nú flyst starfsmaður, er verið hefur í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, í starf sem veitir aðgang að öðrum lífeyrissjóði, sem stofnaður er með lögum, og má þá endurgreiða með vöxtum öll iðgjöld sem greidd hafa verið í sjóðinn hans vegna. Það er skilyrði fyrir þessari endurgreiðslu að hún gangi til kaupa á lífeyrisréttindum fyrir viðkomandi mann í þeim sjóði er hann flyst til. Þó má aldrei endurgreiða hærri upphæð en þarf til þess að kaupa réttindi í hinum nýja sjóði er svari til þess starfstíma er sjóðfélaginn hafði öðlast.
     Sjóðstjórninni er heimilt að nota sömu endurgreiðslureglu þegar sjóðfélagi flyst í annan sjóð sem viðurkenndur er af fjármálaráðuneytinu, eða kaupir sér lífeyri hjá tryggingafélagi eða stofnun sem starfar eftir reglum er fjármálaráðuneytið samþykkir, enda gildi þar sömu reglur um endurkaup og greiðslu lífeyris eins og ákveðnar eru í þessum lögum.
     Á tilsvarandi hátt er sjóðstjórninni heimilt, að fengnu samþykki fjármálaráðherra, að veita viðtöku, vegna manns er gerist sjóðfélagi í þessum sjóði, fé því er kann að vera endurgreitt hans vegna úr sjóði, tryggingafélagi eða stofnun, sem að framan greinir, og veita honum réttindi í samræmi við það.
     Einnig getur stjórnin, þegar sérstaklega stendur á, og með samþykki fjármálaráðherra, heimilað réttindakaup aftur í tímann þó að ekki sé um að ræða yfirfærslu á réttindum annars staðar frá. Það skal meðal annars sett sem skilyrði fyrir slíkum réttindakaupum að mælt sé með þeim af forstöðumanni þeirrar stofnunar er starfsmaðurinn vinnur hjá, að gengið sé frá réttindakaupunum innan árs frá því starfsmaðurinn var ráðinn og að starfsmaðurinn sé eldri en 35 ára þegar hann öðlast aðgang að sjóðnum.
     Heimilt er að endurgreiða iðgjald til erlendra ríkisborgara sem flytjast úr landi, enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland á aðild að.

32. gr.
     Ríkissjóður ábyrgist greiðslu lífeyris samkvæmt lögum þessum, og greiðist hann með 1/ 12 árslífeyrisins fyrir fram á hverjum mánuði.

33. gr.
     Nú verður hækkun á áður úrskurðuðum elli-, örorku- og makalífeyri vegna almennrar hækkunar á launum opinberra starfsmanna og endurgreiðir þá ríkissjóður og aðrir þeir launagreiðendur, sem tryggja starfsmenn sína í sjóðnum, þá hækkun er þannig verður á lífeyrisgreiðslum. Hafi sjóðfélagi greitt iðgjald til sjóðsins vegna starfa hjá fleiri en einum launagreiðanda skal skipting á skuldbindingum milli launagreiðenda reiknast samkvæmt þeim launum sem áunninn réttur er reiknaður eftir og í hlutfalli við réttindaávinning hjá hverjum launagreiðanda.
     Hafi innan árs, áður en taka lífeyris hefst, verið gerðar breytingar á föstum launum fyrir dagvinnu hjá tilteknum sjóðfélaga, og þessar breytingar eru umfram almennar breytingar á launum opinberra starfsmanna, skal reikna skuldbindingar launagreiðenda skv. 1. mgr. út frá launum eins og þau voru fyrir þessa hækkun.
     Stjórn sjóðsins er heimilt, að fengnu samþykki fjármálaráðuneytisins, að taka við skuldabréfi til greiðslu á áföllnum skuldbindingum annarra launagreiðenda en ríkissjóðs skv. 1. mgr. þessarar greinar, enda sé skuldin tryggð með fullnægjandi hætti. Skuldbindingin sem gerð er upp skal byggð á tryggingafræðilegu mati miðað við uppgjörsdag. Launagreiðandi, sem gert hefur upp skuldbindingu sína með útgáfu skuldabréfs samkvæmt þessari málsgrein, ber ekki frekari ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins vegna þess tímabils og þeirra starfsmanna sem uppgjörið tekur til.

34. gr.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 33. gr. skal ríkissjóður endurgreiða þá hækkun sem þar er kveðið á um vegna kennara og skólastjórnenda grunnskóla sem aðild eiga að B-deild sjóðsins. Til frádráttar endurgreiðslu ríkissjóðs samkvæmt sama ákvæði komi tekjur af viðbótariðgjaldi skv. 2. mgr. þessarar greinar.
     Til viðbótar iðgjaldi launagreiðenda skv. 23. gr. skulu launagreiðendur greiða 9,5% iðgjald til B-deildar sjóðsins af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót kennara og skólastjórnenda grunnskóla sem eru sjóðfélagar, ávinna sér lífeyrisréttindi hjá B-deild sjóðsins og starfa við skóla sem reknir eru af sveitarfélögum samkvæmt lögum um grunnskóla.

IV. KAFLI
Gildistaka og lagaskil.
35. gr.
     Sjóðfélagar, sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi og þeir sem fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við gildistöku laga þessara, geta, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 141/1996, valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 24. gr. og 1. eða 2. mgr. 28. gr. laganna, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laganna. Setja skal nánari ákvæði í samþykktir sjóðsins um með hvaða hætti vali sjóðfélaga samkvæmt þessu verði háttað og innan hvaða tímamarka þeir skuli tilkynna sjóðnum um þessa ákvörðun.

36. gr.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 30. gr. skal reikna lífeyri þeirra sjóðfélaga, sem greitt hafa skemur en þrjú ár til sjóðsins, þegar þeir hefja iðgjaldagreiðslu til A-deildar þannig að miðað verði við meðalhækkanir á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu frá því að starfsmaður hættir iðgjaldagreiðslu til B-deildar sjóðsins og þar til taka lífeyris hefst samkvæmt reglum 3. mgr. 28. gr. og 3. mgr. 24. gr., enda sé samanlagður iðgjaldagreiðslutími til A-deildar og B-deildar a.m.k. þrjú ár.

37. gr.
     Sjóðfélagar, sem rétt eiga á að greiða iðgjald til B-deildar lífeyrissjóðsins skv. 4. gr. en kjósa fremur að greiða til A-deildar, eiga ekki rétt til töku ellilífeyris úr B-deild á meðan þeir gegna störfum sem uppfylla aðildarskilyrði 4. gr.
     Að öðru leyti skal setja ákvæði í samþykktir sjóðsins til að koma í veg fyrir niðurfall réttinda eða tvítryggingu réttinda þegar sjóðfélagi flytur sig úr B-deild sjóðsins í A-deild.

38. gr.
     Hafi sjóðfélagi, sem er látinn við gildistöku laga þessara, verið giftur oftar en einu sinni og látið eftir sig maka og fyrrverandi maka ákvarðast réttur til lífeyris milli fleiri en eins rétthafa makalífeyris eftir eldri lögum. Heimilt er þó að skipta rétti til makalífeyris milli fyrrverandi maka og síðari sambúðaraðila eftir gildistöku laga þessara samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 27. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Félagsmenn í stéttarfélögum, sem samkvæmt ákvæðum laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og laga nr. 16/1965, um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna, hefðu átt skylduaðild að þessum sjóðum, skulu eiga rétt til aðildar að A-deild sjóðsins þar til samið hefur verið um lífeyrissjóðsaðild fyrir þessa starfsmenn, þó svo að ákvæði 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna taki ekki til þeirra, og skulu launagreiðendur þeirra þá greiða iðgjald þeirra vegna til sjóðsins samkvæmt ákvæðum 13. gr. laganna.

II.
     Þrátt fyrir ákvæði 4. og 5. mgr. 13. gr. laganna skal iðgjald launagreiðenda vera 11,5% á árunum 1997–99.

III.
     Eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku laga þessara skal stjórn sjóðsins ákveða nýja hækkunarprósentu skv. 4. mgr. 15. gr. laganna í samræmi við tillögur tryggingafræðinga, þó aldrei hærri en 0,8%. Við þá tillögugerð skal viðbótarkostnaður vegna tilfærslu sjóðfélaga úr B-deild sjóðsins í A-deild skv. 4. og 5. mgr. 4. gr. laganna útreiknaður og metinn til breytingar á annars ákveðinni prósentu.

IV.
     Þeir starfsmenn Ríkisspítala, sem aðild eiga að sjóðnum í árslok 1996 og eru í störfum sem flytjast til Sjúkrahúss Reykjavíkur og halda þeim áfram, skulu eiga rétt til áframhaldandi aðildar að B-deild sjóðsins með óslitinni réttindaávinnslu.